Okkar hugsjón

Líf án ofbeldis kallar eftir því að yfirvöld ráðist í allsherjar endurskoðun á lagaumhverfi og stjórnsýslu barnaverndar-, umgengnis- og forsjármála til að tryggja að börn fái að njóta verndar gegn ofbeldi. Fjöldi fjölskyldna lifir nú í algjöru vantrausti gagnvart kerfinu sem á að vernda þær. Um er að ræða kynbundið kerfisbundið ofbeldi sem á rætur sínar að rekja til rótgróinna fordóma gegn konum og valdastrúktúr þar sem karlar njóta forréttinda. Án úttektar mun ástandið viðgangast áfram.

 

Miðlun þekkingar

Rannsóknir sýna að gríðarleg vöntun er á þekkingu um eðli ofbeldis víða í kerfinu. Nauðsynlegt er að sú þekking berist til þeirra yfirvalda sem hafa völd yfir lífum barna. Rannsóknirnar eru til staðar, í það minnsta erlendis, en þær rata ekki inn í þau kerfi sem þurfa á þeim að halda.

 

Skýrari afstaða gegn ofbeldi

Tryggja þarf að yfirvöld fari eftir lögum um að börn eigi að fá að njóta vafans þegar uppi er rökstuddur grunur um ofbeldi. Ofbeldi má aldrei afskrifa sem deilur milli foreldra og ekki má líta framhjá ofbeldi gegn börnum vegna þess að foreldrar deila um umgengni.

 
 

Opnara eftirlit með umgengnismálum

Fjölskyldumál eru rekin fyrir luktum dyrum og gríðarlega erfitt er að nálgast tölfræðilegar upplýsingar um mál frá sýslumanni og dómskerfinu til að gera úttektir og veita aðhald með ofbeldismálum. Þolendur ofbeldis eru algjörlega valdlaus gagnvart stofnunum sem lítið sem ekkert eftirlit er með.

Tillögur að bættri þjónustu

  • Umgengni undir eftirliti

    Í sumum tilvikum getur barn sem orðið hefur fyrir áfalli í samskiptum við annað foreldrið, nýtt sér umgengni undir eftirliti fagaðila við það foreldri. Við teljum að þetta úrræði mætti standa fleiri börnum til boða svo að tryggja megi öryggi þeirra í traustu umhverfi, í stað þess að umgengni án eftirlits sé einfaldlega þvinguð fram.

  • Umgengni á forsendum barns

    Mikilvægt er að umgengni við foreldri sem valdið hefur barni vanlíðan sé á forsendum barnsins og í samræmi við óskir þess en ekki eingöngu foreldrisins sem óskar eftir umgengninni. Þvingun gagnvart börnum er þeim ekki fyrir bestu.

  • Börn með sérþarfir

    Taka þarf sérstakt tillit til barna með sérþarfir, svo sem þörf fyrir læknis- eða sálfræðilega þjónustu. Neiti foreldri barni um nauðsynlega þjónustu ætti barnavernd að grípa inn í. Einnig þarf að taka fullt tillit til þess í ákvörðun um forsjá og umgengni, hvort foreldri hefur séð um að sinna þessum þörfum barns, og áhrifa streitu á sjúkdóm barnsins.

  • Tillit til nálgunarbanns

    Sæti faðir nálgunnarbanni gagnvart móður, samkvæmt lögreglu, ætti annað stjórnvald, svo sem sýslumaður ekki að þvinga móður til að ganga gegn nálgunarbanninu til dæmis með því að mæta á tiltekinn stað með barnið í umgengni. Stjórnvald sem stuðlar að umgengni barns við föður sem sætir nálgunarbanni gagnvart móður ætti að líta sérstaklega til þess hvort barni stafi ógn af hegðun föður.

  • Tillit til ákæru og rannsóknar lögreglu

    Sé yfirstandandi lögreglurannsókn á mögulegu ofbeldisbroti foreldris gagnvart barni eða móður þess eða ákæra er gefin út vegna ætlaðra brota ætti Sýslumaður að sjá til þess með úrskurði sínum að umgengni fari ekki fram, að lágmarki á meðan sakamál er til rannsóknar hjá lögreglu eða fyrir dómi. Þar með að sjá til þess að ætlaðir brotaþolar fái griðartíma frá ásókn vegna málareksturs meints geranda varðandi umgengni.

  • Tillit til aðal umönnunaraðila

    Hafi barn að mestu eða öllu leyti alist upp hjá öðru foreldrinu og það gengið vel, og hitt foreldrið hefur ekki sinnt sínu hlutverki sem umönnunaraðili og ábyrgt foreldri, á ekki að skylda barnið í jafna umgengni við það foreldri. Jöfn umgengni á ekki við um börn sem tengjast aðeins öðru foreldri sínu sterkum böndum.

Óskir mæðra og barna

 

“Ég myndi vilja sjá lög um aðgang dæmdra barnaníðinga að eigin börnum. Eins og staðan er núna geta menn misnotað börn sín, hlotið dóm fyrir það, og eignast svo fleiri börn og misnotað þau líka án þess að yfirvöld hafi nokkuð eftirlit með þeim. Og þetta hefur gerst á Íslandi.”

— Uppkomið barn

“Ég vil að tekið sé út úr lögum og skýringum lögreglunnar og sýslumanns og 112 "ofbeldi milli foreldra" "ágreining milli foreldra" og orðalag um samskiptaerfiðleika. Þetta setur ábyrgðina yfir á þolandann. ”

— Móðir, þolandi heimilisofbeldis

“Það er engin hjálp í að hvetja þolendur og fólkið í kring til að "segja frá", "kalla á hjálp" ef kerfið á hinum endanum er ekki í stakk búið til að veita þolendum algjört skjól frá ofbeldinu.”

— Uppkomið barn

Móðir sem var föst í hjónabandi með ofbeldismanni sínum árum saman

 

“Frumvarp Jóns Steindórs (364) um breytingu á hjúskaparlögum var lagt fram í nóv. 2019 en er enn í fyrstu umræðu (ef ég les rétt út úr vef Alþingis). Ég myndi vilja sjá það fara í gegn.

Mér er sérstaklega hugleikin 2. gr. sem fjallar um að 35. gr. laganna falli brott. Úr greinargerð með frumvarpinu: Um 2. gr. Lagt er til brottfall ákvæðis hjúskaparlaga um að réttaráhrif skilnaðar að borði og sæng falli annars vegar niður ef makar halda áfram sambúð umfram stuttan tíma sem sanngjarnt er að ætla þeim og hins vegar ef hjón taka síðar upp sambúð nema um sé að ræða skammvinna tilraun til að endurvekja samvistir að nýju.

Rökin fyrir því eru tvíþætt. Í fyrsta lagi býður ákvæðið upp á að skilnaðarferli sé tafið með því að knýja fram dómsmeðferð án þess að tilefni sé til slíkrar meðferðar. Í öðru lagi eiga lögráða einstaklingar að geta ráðið sambúðarformi sínu, þ.m.t. breytt hjúskap sínum í skráða sambúð, ef þeir svo kjósa. Ákvæði 35. gr. hjúskaparlaga takmarkar verulega rétt fólks til að velja það sambúðarform sem best hæfir þeim í samskiptum við hvort annað og við ríkið. Þá eru þolendur ofbeldisbrota í nánu sambandi oft í viðkvæmri stöðu gagnvart maka sínum og mörg dæmi um að þeir hafi leitað aftur til hans eftir skilnað að borði og sæng, t.d. af fjárhagslegum eða tilfinningalegum ástæðum eða vegna einhvers konar kúgunar. Ákvæði 35. gr. vinnur því gegn hagsmunum þess hóps sem viðkvæmastur er fyrir.”

“Mér finnst að það ætti að vera eitthvað annað úrræði en sáttameðferð með geranda sínum þegar grunur er um ofbeldi. Sáttameðferð sýslumanns gengur út frá hugmyndafræði sem gengur ekki upp í ofbeldisaðstæðum en yfirvöld reyna allt sem þau geta til að þvinga hana upp á hvaða aðstæður sem er því það eru ekki önnur úrræði. Og þolendum ofbeldis er slétt sama um einhverja hugmyndafræði, sem stofnun sem er ætlað að aðstoða fólk í viðkvæmri stöðu, vinnur eftir.”

— Móðir

“Það er ekkert til sem heitir eða nálgast rafrænt nálgunarbann. Ofbeldisfólki er frjálst að hamast á Facebook eða annars staðar og níða skóinn og eyðileggja mannorð þolenda. Þetta er sjúklegt áreiti, nefnilega, ekki bara fyrir þolanda, heldur líka vini/vinkonur og fjölskyldu. Rannsóknarlögreglufulltrúinn sem ég talaði við kallaði þetta áframhaldandi heimilisofbeldi en sagði að því miður væri ekkert í lögum til að taka á þessu.”

— Móðir

“Mér var aldrei kynnt hjá sýslumanni að ég þyrfti ekki að sitja sáttameðferð í sama rými og ofbeldismaður minn. Ráðgjafi í Kvennaathvarfinu upplýsti mig um að ég ætti rétt á því. Þegar ég bað um það hjá sýslumanni var mér ekki svarað. Mér finnst að þetta ætti að vera skýrt verklag hjá sýslumanni, að þolendum sé boðið þetta.”

— Móðir

“Ég vil sjá verklag og eftirlit með matsgerðum í forsjármálum. Það er eitthvað verulega mikið að þegar það er viðtekin venja að nota persónuleikapróf sem eru úrelt og ekki stöðluð á Íslandi, til þess að meta forsjárhæfni foreldra í deilum við ofbeldismenn.”

— Uppkomið barn