láo profile mynd.jpg

Saga Lífs án ofbeldis

Líf án ofbeldis varð til í október 2019 þegar hópur mæðra og uppkominna barna sameinuðust til að mótmæla því að börn væru skikkuð af yfirvöldum í umgengni við feður sína, þar sem rökstuddur grunur eða gögn lágu fyrir um ofbeldi gegn barni eða móður.

Líf án ofbeldis varð í kjölfarið sterk og áberandi hreyfing aktivista sem berst gegn kerfisbundnu ofbeldi gegn mæðrum og börnum. Greinar voru skrifaðar, hópurinn hitti fólk í ábyrgðarstöðum og vakin var athygli á málstaðnum á facebook síðu Lífs án ofbeldis með róttækum hætti.

Stjórn félagsins

Kolbrún Dögg Arnardóttir, formaður
Eija Katarina Jansdotter, gjaldkeri
Nafnvernduð, varaformaður

Umsjón með samfélagsmiðlum:

Kolbrún Dögg Arnardóttir
Eija Katarina Jansdotter
Sigrún Sif Eyfeld Jóelsdóttir

photo-1610928712141-a292b96f43e8.jpeg

Samtökin Líf án ofbeldis

Samtökin Líf án ofbeldis voru formlega stofnuð í ágúst 2020. Eftir þrotlausa vinnu í nokkur ár þar sem sífellt fleiri konur bættust í hópinn var ekki hjá því komist að leyfa hreyfingunni að stækka og gefa málstaðnum stærri möguleika á að bæta hag þolenda ofbeldis. Talskonur samtakanna vinna alla vinnuna í sjálfboðavinnu eins og er, en styrkir eru notaðir til að vekja frekari athygli á málstaðnum.

Samtökin Líf án ofbeldis eru baráttusamtök mæðra og uppkominna barna sem krefjast þess að börn séu vernduð gegn ofbeldi feðra í umgengnis- og forsjármálum. Um er að ræða kynbundið kerfisbundið ofbeldi sem á rætur sínar að rekja til rótgróinna fordóma gegn konum og valdastrúktúr þar sem karlar njóta forréttinda.

Hreyfingunni #lífánofbeldis var hrundið af stað vegna endurtekinna úrskurða og umfjallana í fjölmiðlum um umgengnis- og forsjármál þar sem börn eru skikkuð í umgengni við gerendur sína, barnaníðinga og ofbeldismenn.

Þess er krafist að dómsmálaráðherra axli stjórnunarlega ábyrgð og tryggi öryggi barna og vernd gegn ofbeldi í réttarákvörðun um líf þeirra í forsjár- og umgengnismálum. Við krefjumst þess að lagaframkvæmd sýslumanna og dómara sé í reynd í samræmi við þær áherslur sem sammælst hefur verið um í núgildandi barnalögum um aukið vægi ofbeldis við ákvörðun forsjár og umgengni. Við viljum koma þeim skilaboðum til samfélagsins og yfirvalda að vernd barna gegn ofbeldi í ákvörðun sýslumanna og dómara er ábótavant og mæðrum sem greina frá áhyggjum sínum af ofbeldi í forsjár- og umgengnismálum er gert ókleift að vernda börn sín.  Framtakinu er ætlað að minna yfirvöld á skyldu sína gagnvart börnum og gagnvart þolendum ofbeldis.  Stjórnvöldum ber skylda til að grípa til allra nauðsynlegra aðgerða til að vernda börn gegn ofbeldi.

Tilgangur samtakanna

 

Tilgangur félagsins er að berjast fyrir því að börn fái að eiga ofbeldislausa æsku. Félaginu er ætlað að minna yfirvöld á skyldu sína, skv. 47. gr. barnalaga, að vernda börn gegn ofbeldi og tryggja öryggi þeirra í réttarákvörðun um líf þeirra í forsjár- og umgengnismálum.

Tilgangi sínum hyggst félagið ná með upplýsingaöflun og upplýsingamiðlun um reynslu mæðra og barna af meðhöndlun umgengnis- og forsjármála í kerfinu, sem upplifað hafa ofbeldi af hendi barnsföður eða föður.

Samtökin eru félagasamtök og eingöngu rekin með frjálsum framlögum. Styrkir eru notaðir til að standa straum af grunnkostnaði en ekki er atvinnurekstur í félaginu.