Hver er vandinn?

Komið hefur í ljós gríðarlegur vanræksluvandi í dóms- og barnaverndarkerfinu er varðar vernd barna gegn ofbeldi. Skýrsla sem unnin var af breska dómsmálaráðuneytinu, gefin út árið 2020, sýndi sláandi niðurstöður. Gríðarlegur fjöldi kvenna um heim allan segja frá miklu skilningsleysi og vanþekkingu yfirvalda á heimilisofbeldi og ofbeldi gegn börnum, þar sem börn eru ekki vernduð gegn ofbeldi.

Sjónarmið Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna eru oft ekki virt í réttarákvörðunum í dómskerfinu og hjá sýslumönnum, og ekki heldur í barnavernd. Konur eru hvattar til að yfirgefa ofbeldismenn, en sitja svo fastar í kerfisofbeldi og neyðast til að senda börn sín í umgengni við gerendur sína. Yfirvöld leyfa ofbeldi gegn börnum að halda áfram vegna þess að umgengni er úrskurðuð. Ofbeldið heldur áfram með samþykki og þvingun yfirvalda.

Nýleg bandarísk rannsókn á yfir fjögur þúsund málum á tíu ára tímabili, sýnir að líkur aukast úr 30% í helmingslíkur á að móðir missi forsjá til föður ef hún ásakar hann um ofbeldi og áhættan tvöfaldast ef faðir ásakar móður á móti um tálmun. Innan við helmingslíkur eru á því að ásakanir móður um ofbeldi í forsjár- eða umgengnismálum í Bandaríkjunum séu teknar trúanlegar (41%) og minni líkur ef móðir ásakar föður um ofbeldi gegn barni. Hið sama gildir ekki í málum þar sem mæður ásaka feður um tálmun á umgengni. Þetta rennir stoðum undir þá gagnrýni að ásökun um tálmun og foreldraútilokun (Parental Alienation, PA) í ofbeldismálum er í engu frábrugðin ásökun um foreldrafirringu (PAS) byggð á óviðurkenndum hugmyndum og fordómum gegn konum. Í bandarískri rannsókn sem birt var árið 2019 kom í ljós að 88% barna voru beitt endurteknu ofbeldi eftir að ofbeldisfullur faðir fékk forsjá, ofbeldið varð alvarlegra og andlegri heilsu barnanna hrakaði verulega.

Alþjóðasamfélagið telur endurtekið mynstur í réttarákvörðun þjóðríkja um forsjá og umgengni áhyggjuefni þar sem ofbeldi gegn konum í nánum samböndum sé ekki gefið nauðsynlegt vægi. Hópur sérfræðinga um kvenréttindi á vegum Sameinuðu þjóðanna ályktaði um stöðuna og kynnti yfirlýsingu um efnið á ráðstefnu á vegum Evrópuráðsins (e. Council of Europe) þann 24. maí 2019 í Strasbourg í Frakklandi. Þar kom fram að hegðunarmynstur réttarkerfa afhjúpuðu undirliggjandi mismunun gegn konum og hvernig skaðlegar staðalímyndir um konur eru notaðar gegn þeim í málum barna þeirra.  Áréttað var við aðildarríki að halda þyrfti fast í meginreglu um bestu hagsmuni barnsins en einnig að verulega þurfi að rétta hlut kvenna í forsjár- og umgengnismálum sem oftar en ekki er mætt með vantrausti þegar þær greina frá ofbeldi. Þá er það gagnrýnt að þrátt fyrir sögu föður um ofbeldi gegn móður og þar með aukna ofbeldishættu fyrir barn sé ofbeldissögu sjaldnast gefið vægi í réttarákvörðun aðildarríkja um umgengni og forsjá barna. 

Í athugasemdum með frumvarpi íslenskra barnalaga kemur fram að líta verði á ofbeldi í víðum skilningi. Í barnalögum, nr. 76/2003, var vægi ofbeldis aukið við ákvörðun forsjár og umgengni. Samanber 34. og 47. gr. laganna þar sem lögfest var að við ákvörðun um forsjá eða umgengni beri að líta til þess hvort hætta sé á að barnið, foreldri eða aðrir á heimili barnsins hafi verið eða muni verða beitt ofbeldi.  Þetta þýðir að við ákvarðanir um líf barna er það barnið sem á að njóta vafans um ofbeldishættu. „Saklaus uns sekt er sönnuð“ á ekki við í málum barna og engin krafa er gerð um að menn séu dæmdir fyrir ofbeldi til þess að hagsmunir barna séu varðir. Samkvæmt núgildandi barnalögum ber að taka tillit til gagna og vitnisburða sem sýna fram á að ofbeldi hafi átt sér stað eða geti átt sér stað. Eins og staðan er í dag er mæðrum gert ókleift að vernda börn gegn ofbeldi þar sem þessar lagabreytingar hafa ekki skilað árangri.

Í gögnum UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, kemur meðal annars fram að 16,4% barna hér á landi verða fyrir líkamlegu eða kynferðislegu ofbeldi fyrir 18 ára afmælisdaginn sinn. Ofbeldi er helsta ógn sem steðjar að börnum á Íslandi og hefur UNICEF þess vegna starfað ötullega að því að skapa byltingu fyrir börn á grunni breiðfylkingar fólks á Íslandi. Ofbeldi á börnum á aldrei að líðast og það er skylda stjórnvalda að grípa til allra nauðsynlegra aðgerða til að vernda börn frá ofbeldi.

Sagan á bakvið vandann

 

Vandann má rekja til rótgróinnar kvenfyrirlitningar og fordóma gegn mæðrum sem vernda börn sín gegn ofbeldi. Kenningin um foreldrafirringarheilkennið (e. Parental Alienation Syndrome, PAS) er af þeirri gerð sem ræðst að trúverðugleika þolenda ofbeldis, og hefur endurtekið verið notuð gegn þolendum víða um heim í áratugi.

Dæmi um kerfisofbeldi

 

Íslenskt flóttafólk

Íslenskar mæður hafa þurft að flýja land til þess að komast undan ofbeldi barnsföður síns og ofbeldi og vanrækslu kerfisins gagnvart þeim.

 

Forsjá færð til föður

Forsjá er færð frá móður yfir til föður þrátt fyrir að það sé samhljómur um að barninu sé best borgið hjá móður, en vegna þess að móðir leyfir ekki umgengni vegna ofbeldissögu föður er forsjáin færð til föður. Umgengnisréttur föður er látinn trompa hagsmuni barnsins.

Börnum neitað um þjónustu

Ofbeldisfullir feður geta neitað börnum um nauðsynlega heilbrigðisþjónustu ef þeir hafa forsjá yfir þeim og barnavernd gerir lítið sem ekkert í því, þar sem málin eru stimpluð sem deilur milli foreldra.

 

Faðir hefur rétt, en móðir skyldu

Faðir sem neitað hefur að gangast við eða sinna barni sínu frá fæðingu þess getur krafist þess að fá umgengni við barnið á sínum forsendum þegar honum dettur í hug. Dæmi eru um að börn sem hafa engin grunntengsl við föður séu skikkuð í jafna umgengni við föður.

Börn skikkuð í umgengni

Sýslumaður úrskurðar börn í umgengni við menn með þekkta og skráða sögu um ofbeldi gegn barnsmæðrum og börnum sínum, og skammar mæður fyrir að tálma umgengni. Litið er framhjá ofbeldishættu ef menn eru ekki með dóm fyrir ofbeldið.

 

Börn yfirheyrð um ofbeldi

Börn sem hafa farið í Barnahús og sagt frá reynslu sinni af ofbeldi í öruggu umhverfi sérhæfðs fagfólks og sýslumaður hefur fengið skýrslu um það, hafa þurft að sitja undir ómanneskjulegum yfirheyrslum hjá sýslumanni um ofbeldið, og ofbeldið dregið í efa.