“Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu reyndi árum saman að þvinga börnin mín í umgengni við föður sem beitti þau kynferðisofbeldi og dómsmálaráðherrar spiluðu með. Mér leið stundum svo illa og var svo buguð að mig langaði að svipta mig lífi en ég gat það ekki því þá væru börnin sett á heimili barnaníðingsins.”

— Móðir

“Raunar hafa allir séð að við erum þolendur ofbeldis; lögregla, fagfólk og læknar. Allir nema barnavernd sem átti að sjá það.”

— Móðir

“Ég er búin að gefast upp. Í tólf ár hef ég reynt að vernda börnin mín gegn ofbeldinu sem hann beitti okkur. En eftir þrjár forræðisdeilur og fjórðu í vinnslu uppgötva ég að ég hef ekki meira baráttuþrek. Hann vinnur. Ég vona bara að börnin þurfi ekki að upplifa það sem ég þurfti að upplifa með honum. Eina leiðin fyrir mig til að lifa áfram er að leyfa honum að vinna. Ég er farin úr landi og þarf þá ekki að þurfa að sitja undir meira kerfisofbeldi, stöðugar tilkynningar til barnaverndar, sýslumaður, lögfræðikostnaður. Þetta er brotið kerfi.”

— Móðir

“Það er meira en að segja það að komast lifandi útúr „kerfi“ þar sem litið er á frásögn barna af kynferðisofbeldi í Barnahúsi sem „einhliða gagnaöflun móður". Kynferðisofbeldi staðfest í lokaskýrslu af sálfræðingi í Barnahúsi. Tíu ár af þessu, geri aðrir betur!”

— Móðir

TW — Móðir skrifar.

Ég er móðirin sem fyrir nokkrum mánuðum síðan var svipt forsjá, fyrir það eitt að neita að samþykkja umgengni án eftirlits við mann sem hefur brotið kynferðislega gegn barninu mínu, ásamt tveimur öðrum börnum.

-

Nú eru tvö ár síðan ég kærði fyrrverandi sambýlismann og barnsfaðir minn fyrir kynferðisbrot gegn barninu okkar.

Þegar ég tók fyrstu skrefin í að segja frá því sem ég hafði lengi verið hrædd um að væri að gerast, og sem dóttir mín var þá nýbúin að segja frá, hélt ég í fyllstu alvöru að ég myndi fá hjálp. Ég leitaði til Stígamóta, sem ráðlögðu mér að leita til Barnaverndar, sem ég gerði, og stuttu síðar til lögreglunnar.

Lögreglukonan sem tók við kærunni er fyrsta manneskjan sem sagði skýrt við mig „Móðir til móður - Þetta er ekki eðlilegt og ég myndi ekki treysta þessum manni fyrir barninu mínu“.

Þá fyrst fór ég að hætta að efast um að allt sem hann var búinn að telja mér trú um að væri eðlilegt, væri í raun ofbeldi.

En það er ekkert eðlilegt við það að menn séu daglega að fá standpínu þegar þeir eru að sinna barninu sínu. Það er heldur ekkert eðlilegt að þegar það gerist, að taka barnið inn í annað herbergi og tilkynna að „við ætlum aðeins að kúra“.

Það er ekkert eðlilegt að blása á kynfæri barnsins.

Og SAMA HVER hvötin á bakvið svona hegðun er, þá er ekkert eðlilegt að þvinga barn að alast upp í slíkum aðstæðum.

Það er ekkert eðlilegt koma að manninum þar sem buxur hans eru ógirtar, og bleyja barnsins toguð niður að framan. Það er ekkert eðlilegt að ég sé þá sökuð um að ímynda mér hluti og að „ég ætti ekki að vera komin heim svona snemma“.

Það er ekkert eðlilegt að barnið mitt biður mig um að „nota ekki marga putta“ þegar ég er að fara að skipta á því.

Það er heldur ekkert eðlilegt að barnið mitt segist vera illt í klofinu, því „pabba skegg kitlar“.

Og það er ekkert eðlilegt að eftir allt þetta er mér sagt að treysta þessum manni fyrir barninu mínu, því samkvæmt kerfinu; dómurum, sálfræðingum og sýslumannsfulltrúum, á ég ekki að hafa áhyggjur. Heldur þarf ég að finna leiðir til að treysta honum.

-

Við förum í Barnahús og þar er barnið mitt svo hrætt að ekki er hægt að skoða það. En það er ekki horft á það sem vísbendingu um að eitthvað gæti mögulega verið að. Ekki er reynt að tala við barnið. Okkur er ekki boðin frekari aðstoð. Í staðinn er málið fellt niður „vegna skorts á sönnunargögnum“.

Á meðan á lögreglurannsókn stendur leggur faðir inn beiðni um að fá fulla forsjá og að ég fái umgengni aðra hverja helgi, á þeim grundvelli að ég sé að tálma.

Þrátt fyrir að ég bjóði honum í sáttameðferð og að við gerum samning um umgengni.

Þrátt fyrir að ég, á þeim tíma, sé samkvæmt kerfinu ekki að tálma heldur að sinna skyldum mínum og stoppa umgengni til þess að tryggja öryggi barnsins míns.

Eftir þetta stígur systir hans fram og lýsir mjög grófu kynferðisbroti af hans hálfu gegn henni þegar hún var barnung.

Stuttu seinna kveður dómari upp bráðabirgðaúrsurð um aukna umgengni við föður– án þess að talað væri við mig, barnið mitt, eða systur hans. Einfaldlega er litið á frásögn mína, barnsins míns og systur hans sem „einhliða gagnaöflun móður“. Ógilt bara.

Ég fæ ekkert annað um að velja en; að annað hvort halda áfram að bjóða umgengni undir eftirliti, og þá fara gegn úrskurði, eða að láta þvinga mig til þess að setja barnið mitt í aðstæður þar sem ég veit að hefur áður verið brotið á því.

Allt í einu breytist skylda mín að tryggja vernd barnsins gegn ofbeldi í brotahegðun!

Og af því að þessi úrskurður um umgengni var kveðinn upp geta faðirinn og dómskerfið núna sagt mig tálma, og eftir þetta er komið fram við mig eins og ÉG sé sakborningur.

Allt í einu er ég „sek“ um að fylgja ekki dómsúrskurði.

Enginn býður mér aðra leið til að tryggja öryggi barnsins. Enginn sýnir vilja til þess að tryggja öryggi barnsins.

Ég býð sáttafund með dómurum og sálfræðingi og þar er HLEGIÐ að hugmynd minni um umgengni undir eftirliti fagaðila. Eins og það sé fráleit hugmynd að vilja örugga umgengni. Og að trúa því að það gæti verið í boði. Ég er í staðinn hvött til að finna leið til að treysta honum. Öll ábyrgðin lögð á mig.

Sama viðhorf ríkir í dómssal. Ég er ásökuð og þarf að svara fyrir það, hvers vegna ég tel mig eiga rétt á að fara gegn úrskurði. Ofbeldið sem hann hefur beitt er ekki lengur inni í myndinni og þegar ég bið um orðið til að minnast á ástæðuna fyrir því að við séum hér yfir höfuð er „sussað“ á mig.

Fyrir dómi vitna tvær konur um brot hans gegn þeim þegar þær voru barnsungar en það fær ekkert vægi. Allt vægi lagt í hans vogarskálar þar sem „ fólkið hans“ segist aldrei hafa séð neitt. Og þá bara gerðist ekkert?

Gerist heimilisofbeldi ekki nema einhver annar sjái til?

Brjóta kynferðisbrotamenn gegn börnum fyrir framan fjölskyldu og vini sína?

Þegar ég segist aftur ekki geta treyst honum til að gæta öryggi barnsins, er forsjáin tekin af mér.

Forsjáin er tekin af mér - móður sem er fullhæf til að annast barnið sitt, móður sem hlýtur traust annarra foreldra að sinna börnunum þeirra - fyrir það eitt að gera það sem KERFIÐ HEFÐI ÁTT AÐ GERA – vernda barnið mitt. Það er eina „gilda“ ástæðan sem er gefin upp. Ég er talin ólíkleg til að stuðla að eðlilegum samskiptum og umgengni.

Það er ekkert sem fyrir barni heitir eðlileg samskipti við mann sem hefur brotið gegn því.

Í staðinn fyrir að að túlka viljaleysi mitt til að láta barnið mitt í eftirlitslausa umgengni við barnaníðing sem ábyrgð, sem ég er að sýna sem foreldri þess, og að ég set hagsmuni og velferð barnsins okkar í fyrsta sæti, er það túlkað sem óhlýðni.

Afhverju myndi ég vilja fara gegn úrskurði ef ég teldi það ekki vera beint gegn hagsmunum barnsins að fara eftir honum? Þau rök vantar alveg og þau rök virðast ekki skipta neinu máli.

Ofbeldið skiptir engu máli í kerfinu.

Líðan barnsins skiptir engu máli.

„Óhlýðni“ mín skiptir öllu máli, og fyrir það er barni refsað!

-

Hvernig getur verið, að dómsvald fyrst og fremst taki ákvörðun um að skikka barn í umgengni við mann þar sem liggja fyrir frásagnir og lýsingar á kynferðisbroti hans – þá sérstaklega án þess að hafa heyrt orð í okkur þolendunum eða athugað afstöðu, vilja og líðan barnsins.

Þar var tekinn af mér rétturinn til að halda áfram að vernda barnið mitt. Tekinn af barninu mínu réttur til verndar – öllu snúið við og allt í einu er ég ofbeldismanneskjan sem er sek um að „tálma“.

Hvernig getur verið að það sé réttlætanlegt að taka forsjá af móður, sem sér enga aðra leið til að vernda barnið sitt gegn frekara ofbeldi en að stoppa umgengni, því hún hreinlega fær ekki hjálpina sem hún er að biðja um. Hjálp sem kerfið lofar okkur öllum! Hjálp sem ég virkilega hafði trú á að væri til staðar.

Hvað hefði ég getað gert öðruvísi?

Hvar er valmöguleikinn um umgengni þar sem velferð barnsins er sett í fyrsta sæti?

Þar sem vilji afbrotamannsins hefur minnst vægi?

Þar sem ég þarf ekki að gerast „brotleg“ til þess að koma í veg fyrir að barnið mitt verði fyrir frekari skaða?

Hverju tapar kerfið á því að hlusta og trúa? Engu.

Hverju tapar barnið mitt á að vera hrifsað frá móður sinni og þvingað inn í aðstæður þar sem það hefur áður orðið fyrir ofbeldi? ÖLLU.

Eins og þetta væri ekki nóg en nú liggur fyrir hótun um aðför. Faðir óskar þess að lögreglan komi og taki barnið úr umsjá móður sinnar sem er eina öryggið sem barnið þekkir, með valdi, og samkvæmt framgöngu og niðurstöðu sáttarfundar er það eina sem getur stoppað þetta er ég – með því að bakka og leyfa eftirlitslausa umgengni.

Þetta eru ómanneskjulegar kröfur. Og ÖLL ábyrgðin er sett á mig. Ég er látin bera ábyrgð á því hvort aðförin verði framkvæmd, því önnur leið til að stoppa hana er ekki til?

Það eru ómannúðlegt að vilja það að hún sé framkvæmd.

Það er ómannúðlegt að samþykkja það!

Það er mannréttindabrot af hálfu kerfisins að tryggja ekki vernd barnsins!

Það væri mannréttindabrot af hálfu dómsstóla og lögreglu að beita valdi til að komast inn á heimilið okkar og trámatísera barnið.

Það yrði áfall og hefði í för með sér óafturkræfar afleiðingar sem myndi lita líf barnsins míns.

Það er EKKI BARNINU FYRIR BESTU að láta taka það með valdi úr því örugga umhverfi þar sem því líður vel og er að blómstra í - einungis í þeim tilgangi að koma því í umsjá til einhvers þar sem er tvímælalaus hætta er á áframhaldandi ofbeldi.

Önnur leið verður að vera til – það getur ekki verið að þetta sé það sem er talið það besta fyrir börn.

Ég vil biðla til ykkar allra sem hafa lesið þetta að vera ekki sama.

Ef þú hefur tök á því bið ég þig um að hafa hátt um þetta.

Ef þú hefur vald til þess að stoppa þetta – gerðu það!

——

Forsvarskonur félagasamtakanna Líf án ofbeldis hafa lesið dóminn og önnur gögn sem fylgja málinu og staðfesta réttmæti frásagnar móður.

Aðra umfjöllun um málið má lesa nánar hér:

https://stundin.is/grein/11307/

https://stundin.is/grein/9656/

Móðir skrifar.

Ég var 19 ára gömul, týnd, með brotið sjálfstraust og fannst alltaf eitthvað vanta. Kynntist strák sem virtist svo góður og kom vel fram við mig, bara að ég vissi hvað beið þegar gríman féll. Fyrsta skiptið sem hún féll niður sátum við í bíl á leið í Smáralind og byrjaði hann að slá tómri gosflösku laust í hausin á mér og hló en bað ég hann um að hætta og við það litla að biðja hann um að hætta missti hann sig, bilaðist sló mig í framan reif síman minn af mér og kastaði honum úr bílnum. Því næst keyrði hann í Heiðmörk stoppaði þar reif mig útúr bílnum henti mér í jörðina og sagði að hann ætti að drepa mig fyrir að vera svona vanþakklát, henti mér svo aftur inní bílinn og keyrði af stað þar sem hann bjó fyrir utan Reykjavík, alla leiðina þangað grét hann og sagðist ekki skilja hvað hafi hlaupið í hann og reyndi biðjast afsökunar en ég var símalaus og vildi bara fá fara og reyndi að grát biðja hann um að hleypa mér út.

Þegar heim til hans var komið bað ég móður hans um síma til fá hringja í vinkonu mína og sá hún að ekki var allt í lagi og sagði ég henni hvað skeði og brotnaði niður, en fékk aldrei síma til hringja. Ég reyndi fara en móðir hans elti mig og talaði mig til að fara ekki og útskýrði fyrir mér að hann væri á kvíðalyfjum (sem í raun voru geðlyf) og þau væru líklegast að fara illa í hann og hún myndi láta hann leita sér hjálpar, sem ég trúði með meðvirknina í botni og fyrirgaf honum. Ofbeldið hélt áfram, stig magnaðist andlega og líkamlega, einhvernvegin tókst móður hans alltaf að tala mig til og ég gerði mér ekki grein fyrir því þá hvað hún var mikill þátttakandi í andlegu ofbeldinu.

Eitt kvöld fyrir afmælið hans fórum við út að borða og ætluðum að hitta vinkonur mínar eftir á og vini hans sem voru niðri bæ og gerðum við það. Nema að vinkonur mínar voru inná Bjarna fel og fór ég þangað til þeirra og hann stóð fyrir utan með vinum sínum að fá sér sígarettu og ætlaði svo að koma inn. Tíminn leið og hann var ekki að koma svo ég hringi í hann og ekkert svar, síðan koma vinir hans og segja mér að dyraverðirnir neita að hleypa honum inn því hann var svo drukkinn. Í því er ég að fara standa upp og ætla til hans þá birtist hann akkúrat öskrar öllu illu á mig og bítur mig í öxlina þannig að húðin rifnar, í því ýtti honum af mér og hleyp út. Hann kemur á eftir mér, nær mér og ræðst á mig fyrir utan Te og kaffi rétt hjá. Þrír strákar koma hlaupandi að mér og spyrja hvort allt sé í lagi og ég lýg að þeim að ég væri bara grátandi af því ég hefði verið að rífast við vinkonu mína en nota tækifærið þar sem hann bakkar útaf þeim og fer í leigubíl heim til okkar.

Þegar ég er komin þangað reyni ég að týna saman eitthvað af dótinu mínu til að flýja en á sömu stundu kemur hann inn þannig að ég tek símann minn og bíllykilinn og ætla fara þá fæ ég högg framan í mig og slæ ég hann til baka til ná að fara, en þegar ég er komin að stiganum til labba niður fæ ég högg í bakið og ranka við mér einhverju seinna neðst í tröppunum og búið að taka símann minn og lyklana af mér.

Ég kem mér aftur upp tröppurnar og reyni að finna símann minn og lyklana aftur því ég ætla að fara, núna er tækifærið er það eina sem ég er að hugsa, en enn og aftur situr hann grátandi með símann minn og lykilinn. Ég reyni biðja um það og þá byrjar hann að æsa sig aftur svo ég ætlaði bara að fara og finna hjálp úti en næ rétt að dyrunum þegar hann tekur um hálsinn á mér og ég er alveg að líða útaf, hann hótar að drepa mig og alla fjölskylduna mína ef mér dettur í hug að fara aftur. Á þessum tímapunkti varð mér ljóst að hann myndi drepa mig ef hann ætlaði sér það, eftir þetta atvik gat ég ekki mætt í skóla né varla staðið uppúr rúmi vegna verkja í öllum líkamanum og marið á mér allri var það mikið að ég lokaði mig inni frá öllum og laug því ég væri veik á meðan marið á mér var að hjaðna sem sást vel, framan í mér, á hálsi og framhandleggjum. Enn í dag fæ ég smell í kjálkanum mínum og verk í rifbeininn eftir þetta umrædda kvöld.

Tíminn leið og ofbeldið andlega og líkamlega hélt alltaf áfram, ég var farin að ljúga að öllum í kringum mig til reyna fela sannleikan, að ég hélt fyrir þeim, en gerði mér aldrei grein fyrir því að ég var reyna flýja hann.

Síðan varð ég ólétt og hugsaði alltaf, hann mun hætta núna, hann mun leita sér hjálpar fyrir barnið. Bara ef ég hefði vitað hversu rangt ég hafði fyrir mér. Í gegnum meðgönguna, jú líkamlega ofbeldið vissulega minnkaði þó það væri alltaf til staðar en andlega ofbeldið jókst á móti. Í reiðiköstum reif hann svoleiðis í hárið á mér fleygði mér niður í gólfið. Einn daginn kom hann heim, ég var gengin um 20+ vikur á leið og hafði gleymt að kaupa einn hlut sem hann bað um í búðinni svo ég baðst afsökunar og ætla að fara út í búð ná í það, en þá byrjuðu öskrin um hvað ég væri svakalega gagnslaus og ógeðsleg. Svo tekur hann um hálsinn á mér, sleppir en lætur högg dynja í magann á mér og segist óska þess þetta barn hefði aldrei komið og vildi óska þess það myndi drepast því ég yrði ógeðsleg móðir. Á þessum tímapunkti sé ég svart, slæ hann á móti öskra á hjálp og ætla út en hann rífur í mig þannig að ég næ að fara inná bað og læsa hurðinni og öskra á hjálp. Lögreglan kemur og ég sagði þeim hvað hann hafði gert og hvað væri búið vera í gangi en ég fékk enga hjálp, þau sögðu mér eingöngu að fara bara á öruggan stað.

Meðan ég lá sængurlegu eftir fæðingu barnins var í fyrsta skipti sem ég tók eftir afbrýðisemi útí barnið enda fékk ég að heyra hversu ógeðsleg og vanþakklát ég væri að hugsa bara og pæla í því en ekki honum og fékk högg á mig áður en hann strunsaði þaðan út til að detta í það. Með tímanum fór afbrýðisemin út í barnið og athyglina sem ég veitti barninu, að fara meir og meir í hann og ofbeldið magnaðist aftur. Einn daginn vaknaði hann og fór að leita að buxum sem hann ætlaði í, þær voru óhreinar svo hann tók mig hálstaki og sló mig meðan ég hélt á barninu sem var um það bil 4 vikna gamalt, lét mig svo heyra það hvað ég væri gagnslaus að ég gæti ekki gert neitt. Þegar barnið var um 3 mánaða neitaði hann að láta mig hafa það. Einn daginn þegar hann réðst á mig fékk ég kjarkinn og náði flýja til nágranna með barnið og var hringt á lögregluna og ég kærði hann fyrir brotin þessa umræddu nótt, sem hann er dæmdur fyrir nú í dag.

Líf mitt einkenndist af því að ég gat ekki farið út því hann sat fyrir utan húsið í bílnum og hótaði mér hvert skipti sem ég fór út sama hvort ég væri með barnið eða ein og nálgunarbann á honum. Hann birtist fyrir utan ræktina þegar ég var þar, þrátt fyrir að hann væri byrjaður með annarri stelpu hélt þetta áfram. Hann reyndi allt og notaði barnið alltaf sem afsökun fyrir hegðun hans. Þó svo hann léti mig sækja barnið um miðjar nætur því barnið var að gráta eða hann sagði að barnið væri veikt þegar ekkert var að því, fór ég aldrei ein að sækja það ef ég gat fengið einhvern með mér.

Enn þann dag í dag er ég að reyna berjast fyrir rétti barnsins míns hjá sýslumanni sem hlustar ekki á mig, þrátt fyrir mikil einkenni vanrækslu barnsins og gögn um ofbeldi föður á núverandi heimili sem er samt bara brot af því sem raunverulega á sér stað, þar sem hann leyfir engum að tjá sig um það.

Það er mikilvægt að fara breyta lögum og reglum þegar að kemur ofbeldismönnum og börnum. Eru þetta aðstæður sem íslenska ríkið telur eðlilegt fyrir konur að ganga í gegnum eða börn að verða vitni að? Enginn getur sagt mér að maður sem er fær um að gera allt þetta sé í lagi eða hæfur að umgangast börn sem eru að mótast og þroskast, hvað gera svona aðstæður þeim ?

Móðir skrifar.

Ég og börnin mín erum þolendur, ekki bara þolendur heimilisofbeldis heldur einnig kerfisofbeldis.

Ég bjó við heimilisofbeldi í 7 ár, ég var ung þegar við byrjuðum saman. Ég tók ekki eftir öllum þeim hættu merkjum sem voru svo augljós, en sé þau greinilega þegar horft er til baka.

Ég varð fyrir andlegu, líkamlegu, fjárhagslegu, félagslegu og kynferðislegu ofbeldi af hálfu barnsföður míns.

Eldra barnið okkar varð einnig fyrir andlegu og líkamlegu ofbeldi frá föður sínum ásamt því að vera vitni af allskyns ógeði í minn garð frá föður sínum.

Yngra barnið varð ekki eins mikið fyrir barðinu, ég reyndi eftir bestu getu að passa að barnsfaðir minn myndi ekki hugsa um yngra barnið. Ég bað hann ekki um að gera neitt í uppeldinu, fæða, klæða eða skipta á barninu því ég vildi ekki að hann myndi finna fyrir sama pirring og hörku og eldra barnið þurfti að finna fyrir bara vegna þess að ég vildi svo mikið að hann myndi taka þátt og hjálpa mér með barnið.

En við höfum öll orðið fyrir þessu andlega ofbeldi frá honum.

Það hætti ekki eftir að ég fór frá honum. Hann sagði að hann myndi heldur betur sjá til þess að líf mitt án hans væri helvíti. Hann reynir að standa við orð sín, í gegnum kerfið.

Það eru komin 4 ár síðan ég fór með börnin okkar frá honum.

Hann heldur okkur enn í gíslingu. Hann notar kerfið, forsjármál, meiðyrðamál og fleira og þannig beitir hann mig ennþá fjárhagslegu og andlegu ofbeldi í gegnum kerfið og í gegnum börnin.

Hann fær umgengni, þökk sé dómstólum, þrátt fyrir ótal mörg læknisvottorð, mörg mál hjá barnavernd, sem voru bara opnuð vegna ofbeldis föður á barni sínu og mér og þrátt fyrir lögregluskýrslur þar sem hann hefur verið handtekinn fyrir heimilisofbeldi.

Hann segir börnunum að þau megi meiða mömmu, hann lýgur að börnunum að mamma hafi meitt þá. Börnin eru ringluð, þau spyrja mig afhverju hann segir þetta þegar þau muna ekki eftir því en muna eftir pabba meiða mömmu og eldra barnið.

Á tímabili þurfti ég að tækla ofbeldi yngra barnsins í minn garð, það var eftir að umgengni var sett á aftur frá dómstólum. Hann barði mig og öskraði, kallaði mig ljótum nöfnum, en þarna var barnið aðeins 3 ára, svo grét barnið og sagði að pabbi sinn hafi sagt að hann ætti að meiða mömmu útaf mamma væri svo vond.

Sýslumannsembættið, þau vinna eingöngu í því að foreldrar eigi að vera vinir, við eigum bara að ræða saman. Börnin vilja að við séum vinir. Foreldrar eiga að setja ósætti sín á milli til hliðar fyrir börnin. Hjá þeim er ofbeldi sama og allar aðrar venjulegar erjur milli foreldra.

Börnin tjá sig um hræðslu við föður sinn. Börnin mín tjá sig hjá sálfræðingi, barnavernd, barnahúsi, matsmanni fyrir dómstóla og hjá sáttamanni hjá sýslumannsembætti. Þau segja frá ofbeldi og segjast ekki vilja vera hjá föður sínum vegna hræðslu. En það er enginn sem hlustar, nema sálfræðingar sem geta takmarkað gert.

Börnin eru orðin hrædd við að tjá sig, segja minna og minna frá. Þau segja samt alltaf smá frá en þora ekki að segja of mikið, því börnin eru hrædd, hrædd um að pabbi heyri eða komist að því hvað þau sögðu.

Ég hef reynt að fá samþykki hans að fara með börnin til sálfræðings þar sem þau þurfa þess nauðsynlega. Hann neitar því að þau þurfi svoleiðis aðstoð.

Á tímabili fór ég með eldra barn okkar til sálfræðings á heilsugæslunni í okkar bæjarfélagi, þar var barnið látið svara spurningarlista og greindist þar með, út frá þeim lista, kvíða og depurð.

Miklar mannabreytingar eru á heilsugæslunni og höndlaði barnið illa að þurfa fá nýjan sálfræðing.

Reyndi ég þá að sækja um sálfræðing út í bæ í staðinn, einkum vegna þess að eldra barnið bað um aðstoð vegna reiði sem barnið er hrætt við því barnið verður svo reitt að það stjórnar ekki hegðun sinni og líður því illa í kjölfarið.

Ég fann sálfræðing, svaraði spurningalista sem gaf okkur niðurstöðu að barnið væri með alvarlegan kvíða, depurð, hegðunarvanda og mögulega ADD.

Sálfræðingurinn sagði mikilvægt að þetta barn fái viðeigandi aðstoð. En faðir neitar að taka þátt, hann vill ekki að barnið fari til sálfræðings og gefur því ekki samþykki sitt að barnið fari í sálfræði tíma aftur.

Barnsfaðir minn hefur viðkennt ofbeldið, á mörgum stöðum og er það til í skýrslum á heilsugæslu, barnavernd og lögreglu.

Hann hefur einnig margoft skrifað undir áætlanir hjá barnavernd þar sem hann á að sækja tíma hjá sem áður hét “karlar til ábyrgðar” en nú er það Heimilisfriður. En þar átti hann að vinna með reiði sína og læra að hætta að beita ofbeldi. Hann gerði það þó ekki, hann hætti sjálfur, hann útskrifaði sjálfan sig eftir nokkra tíma.

Ég er búin að vera að berjast við kerfið, berjast við að fá frið, reyna að biðja hann um að sækja sér hjálp fyrir sig og fyrir börnin sín. Hann segist ekki þurfa neina hjálp því hann eigi ekki við nein vandamál að stríða, ég er bara geðveik og það er ég sem þarf hjálpina.

Ég er með hjálp, ég er búin að vera hjá sálfræðingi í mörg ár. Ég veit hreinlega ekki hvar ég væri ef ég hefði ekki haft sálfræðing bæði á þeim tíma sem ég var í þessu sambandi og eftir að ég fór úr sambandinu. Sálfræðingurinn hjálpaði mér að skilja að ég væri ekki geðveik eins og hann sagði mig vera á hverjum degi í mörg ár og að hegðun hans væri ekki eðlileg.

Stjórnvöld þurfa að fara að taka sig á í ofbeldismálum, það eru alltof margar svona sögur. Þar sem enginn hlustar, þar sem horft er framhjá ofbeldinu. Þar sem mæðrum er sagt að þeim beri skylda að vernda börnin sín frá ofbeldi eða annarri vanrækslu en á sama tíma er þeim ekki gert kleift að gera það. Kerfið sér heldur betur til þess að refsa mæðrum fyrir það að reyna að vernda börnin.

Ef það á að hvetja fólk að fara úr ofbeldissambandi þá þarf kerfið að grípa þolandann og börnin. Það þarf að hlusta á börnin og það þarf að taka mark á þeim. Gögn um ofbeldið eiga ekki að vera bara skraut, þau á að taka alvarlega og eiga að vera gild með öllu.

En fyrst og fremst þá er ofbeldi EKKI ósætti milli foreldra. Ofbeldi er ofbeldi, það þarf ekki tvo til! Það er einn gerandi og einn eða fleiri þolendur! Ekki setja ábyrgðina á þolendur. Þolendur eiga ekki að þurfa sætta sig við ofbeldi og kerfið er skydugt til að vernda þolendur frá frekara ofbeldi en ekki taka þátt í því!

Móðir skrifar.

Ég fluttist erlendis með börnin mín í skjóli nætur. Það er erfiðasta ferðalagið okkar til þessa. Ég var svo hrædd um að vera stöðvuð á leiðinni. Að HANN væri búinn að átta sig á því að ég væri að fara og myndi nota ólöglegar leiðir til að stöðva mig. Því hingað til er hann búinn að nota lögin á ólöglegan hátt til þess að kúga mig, brjóta mig, þvinga mig til að gera það sem hann vill. Þeir löglærðu aðilar sem þekkja til þess hvernig hlutirnir eiga að vera á landinu okkar eru allir hissa á því hvernig hann hefur komist upp með að sveigja og beygja lögin að sínum þörfum. Á kostnað minn og barnanna minna. Allt þar til þeir átta sig á hvernig hann er tengdur inn í kerfið. Hverja hann þekkir á Íslandi. Ég var alveg viss um að hann myndi gera það núna, þó ég sé með fulla forsjá og hann ætti ekki að geta stöðvað för okkar.

Við komumst á áfangastað. Á nýja landið okkar. Hér er hið nýja föðurland. Á fimmtán mínútum hér höfum við fengið meiri vernd en allan okkar tíma í baráttu við þennan mann á Íslandi – átta ár. Ísland er ekki lengur landið okkar. Mér finnst verst að við þurfum að fara í útlegð, frá allri fjölskyldunni okkar og vinum – þegar það er hann sem er ofbeldismaðurinn. Hann sem meiddi okkur. Hann hefur haldið áfram að meiða okkur með því að viðhafa tilhæfulausar kærur í kerfinu til þess að stela tímanum mínum og sálarró, ásamt auðvitað fé í lögfræðikostnað. Það sem ég hefði getað gert fyrir börnin mín ef ég hefði ekki þurft að greiða lögfræðingi allan þennan tíma.

Hann hefur haldið áfram að meiða börnin mín með því að eltihrella þau í skólanum. Stolið þeirra friði og ró og gleði. Og meitt í umgengni. Þegar ég spyr eftir umgengni- „hvernig var hjá pabba“ er svarið – „ég vil ekki tala um þetta, mamma viltu ekki spyrja, þetta skiptir engu máli, þú getur ekki gert neitt“. Hann hefur eltihrellt foreldra mína og systkini. Það er enginn öruggur frá honum. Hann stal heimilisfriði okkar og fékk frjálsar hendur til þess að beita okkur ofbeldi. Meira að segja meira en frjálsar hendur. Hann fékk samþykki lögreglu, dómsvalda og sýslumanns.

Já – það má segja að hann hafi beitt okkur áframhaldandi ofbeldi með samþykki lögreglu, dómsvalda og sýslumanns. Því hvað er það annað en samþykki ef þau verja okkur ekki? „Hefur hann hótað þér lífláti skriflega?" - Nei, en hann hefur reynt að lífláta mig. Og hann þarf því ekki að segja það til þess að ég viti það að hann getur það. Hann var sýknaður af því því við vorum bara tvö (ásamt börnunum sem ekki er hlustað á) þegar hann gerði það. Hann veit því að það eina sem hann þarf að gera er að passa að enginn annar sjái. Ég veit alveg hvað hann er að hugsa þegar hann horfir á mig með þessum svip. Þegar hann kemur heim til okkar, hann hefur skriflegt leyfi sýslumanns að hann megi mæta heim til okkar til þess að sækja í umgengni.

Þrátt fyrir grátboð okkar hjá sýslumanni – plís er hægt að leyfa okkur að eiga heimilið okkar í friði – að hann megi ekki koma þangað. „Hefur hann hótað börnunum skriflega?“ Nei, en hann hefur meitt þau svo alvarlega að þau bíða þess ekki bætur og þið hlustið ekki á þau. Þau vita að enginn kemur ef þau tala um það, svo þau eru hætt að tala um það. „En ef hann hefur ekki hótað þér, og ekki lamið þig aftur, hvernig er þetta þá ofbeldi“- spyr stjórnkerfið mig þegar ég er að reyna að fá hjálp.

Því stjórnkerfið á Íslandi skilgreinir ekki ofbeldi sem það að mæta á vinnustað þess sem ofbeldismaður hefur meitt, og horfa á viðkomandi og gera með fingrunum „ég sé þig“. Bara sá sem lenti í ofbeldinu veit hvað það er. Og það versta var að það voru aðrir í kring sem sáu þetta, vissu hvað þessi aðili hafði gert og enginn gerði neitt. Hann gerði þetta við 9 ára barnið mitt. Og það voru fullorðnir í kring. Og enginn gerði neitt. Það gekk enginn í skólanum að barninu mínu og spurði hvernig hann hefði það. Tók enginn utan um hann. Það vissu ALLIR að þessi maður beitti hann ofbeldi. Eða þegar hann mætti um miðja nótt fyrir utan þar sem við sváfum. Kíkti á gluggana. Skildi síðan eftir poka á hurðarhúninum. Eitthvað sem einhver átti, sem afsökun til þess að njósna. Nei – þetta er ekki ofbeldi. Og í hringiðu þessa alls, þegar ég er komin í verndandi hendur í fallega nýja föðurlandinu mínu, byrjar enn ein árásin. Núna, á meðan lögregla er loksins farin að rannsaka hvernig hann beitti börnin mín alvarlegu ofbeldi, og lögreglan hérna heima er búin að koma okkur í öruggt skjól, hefur sýslumaður dagsektarmál gegn mér. Vegna þess – að réttur föður til umgengni við barn – þó svo að barnið vilji það ekki, þó svo að hann hafi beitt barnið og systkini þess ofbeldi, jú og móður þess og í víðari skilningi stórfjölskylduna- réttur föður til umgengni á Íslandi vegur þyngra en réttur barns til lífs án ofbeldis.

Það gildir einu. Hann fær ekki að ræna okkur friðinum aftur. Við erum frjáls. Við erum örugg. Við erum loksins komin í #lífánofbeldis. Verkefninu okkar er þó fjarri lokið. Við glímum við raskanir af þeim toga sem valda því að við vöknum (ef við sofnum) sveitt og jafnvel er rúmið blautt hjá börnunum. Okkur bregður við við minnsta hljóð og erum með óhófleg varnarviðbrögð við hvell læti. Við getum ekki ákveðna hluti eða ákveðinn mat þar sem það eru ákveðnar minningar sem tengjast því. Það vellur upp mikil reiði og ótti við skrýtnustu tækifæri hjá börnunum mínum og ég veit að ég þarf að hafa mig alla við að bjarga þeim. Við erum ekki alveg komin fyrir hornið ennþá. Börn sem hafa upplifað trauma geta nefnilega sóst í vímu-og fíkniefni og ég ætla ekki að missa þau þangað.

Við þurfum líka að æfa okkur í að treysta fólki, það er nefnilega alveg til gott fólk þarna úti. Við erum að læra að anda djúpt og losa um þessa kúgun sem hefur gegnsýrt hverja upplifun okkar af lífinu á Íslandi. Næst þegar þið sjáið okkur þá munið þið kannski ekki þekkja okkur lengur. Við erum nefnilega að læra að ganga aftur bein í baki og brosa. Með öllu andlitinu. Og hjartanu.

Móðir skrifar.

Ég er þolandi ofbeldis barnsföður míns. Andlegt ofbeldi byrjaði strax á meðgöngunni, það jókst eftir fæðinguna og stigmagnaðist síðan í líkamlegt og á endanum kerfisbundið ofbeldi. Þetta hefur staðið yfir í meira en áratug og allt til dagsins í dag. Faðir barnsins míns er gerandi og kerfið hjálpar honum við að níðast á mér, barninu mínu og fjölskyldu minni allri. Mig langar til að segja frá fáeinum atvikum sem gerðust, ég fer ekki út í nein smáatriði, það er of sárt.

Ég missti brjóstamjólkina þegar hann hafði látið hótanir og svívirðingar dynja á mér í þrjá mánuði eftir fæðingu.

Ég skalf, titraði og það lak af mér svitinn þegar hann reif í barnabílstólinn og reyndi að hrifsa barnið úr höndunum á mér hlæjandi og ógnandi.

Ég skildi ekki afhverju aðrir foreldrar litu niður og heilsuðu mér ekki þegar ég mætti með barnið mitt í leikskóla og skóla í mörg ár, ég vissi ekki að hann hringdi og skrifaði bréf til annarra foreldra þar sem hann niðurlægði og laug til um gjörðir mínar.

Ég skildi ekki afhverju hann vildi ekki að við værum vinir og ynnum saman að uppeldi barnsins okkar, við hittumst á opinberum stað þar sem hann hellti sér yfir mig, svívirti mig og kallaði mig öllum illum nöfnum þannig að ég þurfti að flýja af vettvangi með hann öskrandi á eftir mér.

Ég þurfti að svara spurningum fjögurra ára barns, eftir dvöl hjá honum, hvort ég væri lauslát, hvort ég seldi líkamann minn, hvort ég ætti fullt af kærustum.

Barnið mitt þurfti að fara í sturtu þegar það kom frá mér og til hans, barnið lyktaði nefnilega eins og ég, barnið mátti ekki vera með hnút í hárinu einsog ég. “Þú mátt aldrei verða eins og mamma þín,” sagði hann.

Til að toppa siðvillta hegðunina ákvað hann að draga í efa að barnið væri hans í einni kerfisdeilunni. Hann heimtaði DNA greiningu þegar barnið var 12 ára gamalt. Það gerði hann eingöngu til að meiða meira, til að særa meira – og síðast en ekki síst til að kerfið efaðist um heilindi mín. Hann gerði allt sem í hans valdi stóð til að halda mér og barninu okkar í stöðugri vanlíðan.

Einn daginn hrifsaði hann æru mína og friðhelgi einsog úlfur, með samfélagsmiðla, fjölmiðla og lögin sjálf sem hjálpandi hýenur. Skíturinn liggur yfir vötnunum til sýnis fyrir þá sem vilja.

Þessi dæmi eru spor í sandi en þau gefa innsýn inn í veruleika sem ég og barnið mitt lifum í og höfum alltaf lifað í saman.

Ég hef ekki getað notið þess að vera móðir, hann hrifsaði kyrrðina og róna úr hjartanu mínu og hélt mér og barninu mínu í heljargreipum í fjölda mörg ár og til dagsins í dag.

Ég sinnti móðurhlutverkinu af hræðslu og ótta við hann en ekki af þeim kærleika og þeirri ást sem bjó mér í brjósti. Hann rændi mig svefninum, örygginu, sjálfstraustinu, móðurhlutverkinu og mannorðinu, en hann náði ekki að ganga frá mér þó að hann segði það vera ætlunarverk sitt.

Barnið mitt er viðkvæmt barn í dag, ég er viðkvæm kona í dag. Við lifum af saman í gerendavæddu samfélagi þar sem við þurfum sífellt að þola meira og meira. Í samfélagi þar sem þolendurnir þurfa stöðugt að bíða eftir næstu holskeflu, þar sem þolandinn má skammast sín þegar æra hans býður hnekki fyrir allra augum. Þar sem kerfið umbunar geranda þegar hann krefst þess, þar sem þolandi fær aldrei stöðu sína viðurkennda heldur gerandinn.

Það er árið 2020 og það má níðast á þolanda og lögin leyfa það, internetið heimtar blóð, kerfispappírinn, samfélags og fjölmiðlapikkið er notað sem tæki til að hrifsa burt dagana og árin frá mér og barninu mínu.

Í gerendasamfélagi er þolandinn þrællinn á akrinum.

Móðir skrifar.

MÓÐIR SKRIFAR TIL MÆÐRA Í SÖMU STÖÐU. BARNIÐ SEM UM RÆÐIR VAR METIÐ Í SJÁLFSVÍGSHÆTTU EFTIR ÞVINGAÐA UMGENGNI VIÐ FÖÐUR.

Í dag kom dómur héraðsdóms í forsjármáli mínu sem er búið að taka næstum 2 ár. Niðurstaðan varð áfram sameiginleg forsjá og lögheimili hjá mér. Nema umgengni við föður var minnkuð í aðrahverja helgi í stað viku og viku, en það kom af sjálfu sér þar sem barnsfaðir minn er fluttur í annað sveitarfélag.

Það eru búnar að vera blendnar tilfinningarnar hjá mér gagnvart þessum dómi, léttir yfir því að þessu er lokið og barnsleg bjartsýni á að nú muni þetta ganga betur, þetta mál er búið að taka alla orku sem ég átti til og er það sennilega það eina sem komst að hjá mér í dag að vera laus og geta farið að snúa mér að einhverju uppbyggilegra.

Það er samt ekki laust við að ég sé með hálfgert óbragð í munninum yfir því hvernig dómskerfið virkar og hef ég velt því fyrir mér hvað þarf raunverulega mikið ofbeldi að hafa átt sér stað til þess að það sé horft til þess þegar svona dómar eru kveðnir. Hvað þarf skaðinn raunverulega að vera mikill?

Ofbeldi er auðvitað alltaf ofbeldi, en hvar liggja mörkin hjá dómsvaldinu?

Mér varð hugsað til ykkar í dag og allra þeirra hugrökku kvenna sem eru að taka þessa baráttu fyrir börnin sín, og ég segi hugrökku því ofbeldi er ekki til í kerfinu, þetta orð hefur ekkert vægi, þrátt fyrir að öll gögn málsins styðji við að svo sé.

Ég gerði mér fljótlega grein fyrir því að áfrýjun málsins myndi ekki gagnast neitt þegar tekið er svona á ofbeldi innan kerfisins.

Höldum áfram að tala saman, leita lausna það er svo mikilvægt að þetta breytist