Tölfræði ofbeldismála


Samkvæmt tölum úr málaskrá lögreglu voru samtals skráð 2.700 brot gegn börnum undir 18 ára aldri á árunum 2007-2016, það eru að meðaltali 270 brot á ári. Brotaþolar undir 18 ára aldri voru samtals 2.463 á sama tímabili og því urðu í sumum tilvikum brotaþolar endurtekið fyrir brotum.  Fjöldi ofbeldisbrota, kynferðisbrota og líkamsárása eða meiðinga gegn brotaþola undir 18 ára aldri er að jafnaði 24 fleiri en brotaþolar á árabilinu 2007-2016


Samkvæmt ríkissaksóknara er ekki haldin tölfræði um hversu margar tilkynningar eða kærur frá barnaverndarnefndum um ofbeldi gegn börnum leiddu til ákæru og lyktir þeirra mála. Ekki voru heldur til upplýsingar um þetta hjá Barnaverndarstofu.


 

Líf án ofbeldis vill vita

  • Í hversu mörgum þessara mála var meintur gerandi foreldri barns, forsjáraðili eða umgengnisaðli?

  • Hversu margir brotaþolar undir 18 ára aldri eru málsaðilar í umgengnis- eða forsjármálum samkvæmt framlagningu gagna frá lögreglu, barnaverndarnefndum eða Barnahúsi?

  • Hvaða vægi hafa þessi sömu gögn fengið í ákvörðun sýslumanna og dómara um umgengni, dagsektir eða forsjá síðan 2012 þegar áhersla var aukin á vægi ofbeldis í sömu ákvörðun?



Myndin sýnir fjölda skýrslutaka í Barnahúsi frá árinu 2006 til 17. mars 2017 og heildarfjölda beiðna þar sem barnaverndarnefnd óskaði lögreglurannsóknar á meintu refsiverðu broti gegn barni samkvæmt upplýsingum frá Barnaverndarstofu árið 2017. Til hliðsjónar er sýndur fjöldi brotaþola ofbeldisbrota undir 18 ára aldri, kynferðisbrota og líkamsárása eða meiðinga, samkvæmt málaskrá lögreglu árin 2007-2016.

Skráðir brotaþolar ofbeldis undir 18 ára aldri eru samkvæmt lögreglu að jafnaði 166 fleiri en skýrslutökur fyrir dómi samkvæmt Barnaverndarstofu vegna samskonar brota á árunum 2007-2016. Skýrslutökur í Barnahúsi vegna líkamlegs ofbeldis og heimilisofbeldis hófust í mars 2015. Brotaþolar undir 18 ára voru 277 árið 2015 samkvæmt málaskrá lögreglu en skýrslutökur fyrir dómi voru 127 það árið samkvæmt Barnaverndarstofu.



Þegar fjöldi ofbeldisbrota, kynferðisbrota og líkamsárása eða meiðinga er hafður til hliðsjónar við heildarfjölda beiðna barnaverndarnefnda á árunum 2007-2016 sést að skráður fjöldi brotaþola undir 18 ára aldri í málaskrá lögreglu er að jafnaði 170 fleiri en beiðnir barnaverndarnefnda.  

7.png

Á myndunum má sjá fjölda ofbeldis- og kynferðisbrota gegn börnum og fjölda brotaþola samkvæmt málaskrárkerfi lögreglunnar þann 16. mars 2017. Um er að ræða bæði mál tilkynnt til lögreglu af barnaverndarnefndum og öðrum aðilum. Talnaefni hefur áður verið birt í þingskjali 583 — 210. máli á 146. löggjafarþingi 2016–2017 sem svar við fyrirspurn: Hversu margar tilkynningar eða kærur bárust frá barnaverndarnefndum til lögreglu um ofbeldi gegn börnum síðustu tíu ár?

1.png
2.png
3.png

Myndir unnar úr ársskýrslum ríkissaksóknara þar sem kemur fram ítarleg tölfræði um lyktir mála er varða öll kynferðisbrot gegn börnum, þ.e. bæði brot sem tilkynnt voru af barnaverndaryfirvöldum og öðrum aðilum, sbr. eftirfarandi umfjöllun. Athuga ber að 200. gr. hegningarlaga um sifjaspell tekur einnig til kynferðisbrota gegn fullorðnum börnum og niðjum auk samræðis eða kynferðismaka milli systkina en samkvæmt upplýsingum frá ríkissaksóknara er um að ræða mjög fá slík mál á tímabilinu.